Jógalates er skemmtileg blanda af jóga og pilatesi. Þannig verður til frábært æfingakerfi sem gefur okkur aukinn styrk úr pilatesi og aukinn liðleika úr jóga. Jógalates leggur áherslu á að styrkja miðjuna, maga, rass og bakvöðva, bæta líkamsstöðu, teygja vöðva, tóna líkamann, bæta líkamsstjórn og auka blóðflæði. Æfingarnar eru gerðar í takti við öndunina sem hjálpar til við spennu og streitulosun.
Er 4 vikna námskeið sniðið að einstaklingum með vefjagigt eða önnur stoðkerfisvandamál. Blandað er saman jóga og pilates. Farið er rólega af stað, fari vel í grunninn og tímarnir byggðir upp hægt og rólega. Pilates og jóga er góð hreyfing fyrir einstaklinga með vefjagigt. Um er að ræða liðkandi og styrkjandi æfingar þar sem högg á liði, sinar og liðbönd er lítið. Lögð er áhersla á að styrkja djúpa vöðvakerfið, kvið, bak og rassvöðva sem er nauðsynlegt til að auka stuðning við hrygg og háls sem gefur þannig betri líkamsstöðu og minnkar álag á líkamann. Tímarnir enda á góðri hugleiðslu og slökun.
Um er að ræða góðar styrkjandi og liðkandi æfingar þar sem megináherslan er lögð á að styrkja djúpa vöðvakerfi líkamans (kjarnvöðvana). Pilatesæfingar eru gerðar rólega í takt við öndunina, eru mjúkar en samt áhrifaríkar. Pilates er frábært æfingakerfi fyrir stoðkerfið. Auk þess að styrkja líkamann innan frá er Pilates jafnframt góð leið til að liðka og mýkja líkamann, öðlast betri líkamsvitund og líkamsstjórn auk þess sem líkamsstaðan verður betri.
Námskeið þar sem farið er vel í grunninn og tæknina á Pilatesæfingakerfinu. Farið er í grunnreglurnar 5 í Pilates og byggður upp góður grunnur svo auðveldara sé að byggja upp á grunninn og halda áfram með erfiðari æfingar eftir námskeiðið. Hentar nánast öllum óháð aldri, kyni eða bakgrunni.
Gott framhald af námskeiðinu "Pilates 1". Hér eru kenndar fleiri æfingar og byggt upp á þann grunn sem nemendur hafa lært á byrjendanámskeiðinu. Auðvelt að stjórna álaginu vel sjálfur því oft eru kenndar mismunandi útfærslur af hverri æfingu og nemandi getur valið sitt erfiðleikastig.
Þetta námskeið er ætlað þeim sem eru komnir með meiri grunn í Pilates og eru tilbúnir að taka Pilatesæfingar með kraftmeira flæði.
Hér eru Pilates æfingarnar gerðar í kraftmiklu flæði, nauðsynlegt að vera búinn að byggja upp góðan grunn.
60 mínútna tímar þar sem unnið er vel með djúpvöðvakerfi líkamans, kvið, bak og rassvöðva. Æfingarnar gefa betri líkamsstöðu, tóna líkamann, teygja stutta vöðva, bætir líkamsstjórn og eykur blóðflæði. Tímarnir enda á góðum yogateygjum og slökun. Upplagt að nýta hádegishléið og skella sér í hádegistímana.
Rólegar og mjúkar Pilatesæfingar ætlaðar einstaklingum sem glíma við stoðkerfisvandamál. Pilatesæfingar eru góðar styrkjandi æfingar með áherslu á djúpa vöðvakerfi líkamans. Þær liðka og styrkja líkamann, bæta líkamsstöðu og líkamsvitund. Æfingarnar eru mjúkar en áhrifaríkar, högg á liði, sinar og liðbönd er lítið.
Hér eru Pilates æfigarnar gerðar rólega og sniðið að einstaklingum 50 plús. Mjúkar og styrkjandi Pilates æfingar sem eru mjög góðar til að viðhalda góðri líkamsstöðu, styrk, liðleika og jafnvægi. Svo frábært með pilates að það er hægt að stunda þær langt fram eftir aldri, hægt að gera æfingarnar mjög einstaklingsmiðaðar því oftast eru til mismunandi útgáfur af hverri æfingu.
Orðið jóga merkir sameining og er þá átt við sameiningu huga, líkama og sálar. Í jóga reynum við að skoða okkur sjálf og auka sjálfsþekkingu okkar. Með því öðlumst við betri jarðtengingu, meiri núvitund og aukna hugarró. Sýnt hefur verið fram á að jóga æfingar, stöður og hugleiðsla auka hæfileika okkar til að einbeita okkur, minnka stress og kvíða. Auk andlegra ávinninga hefur jóga fjölmarga líkamlega ávinninga.
Er ætlað byrjendum jafnt sem lengra komnum. Ef þú ert stirð/ur eða með verki í liðum og stoðkerfi gæti þetta verið rétta námskeiðið fyrir þig. Áhersla er lögð á að liðka og mýkja stærstu liðamót líkamans, hryggjasúlu, mjaðmir, axlir, háls og hné. Áhersla lögð á mýkt, hlusta á líkamann og streitulosandi flæði sem mýkir, gefur orku og vellíðan. Tímarnir enda á langri og góðri slökun þar sem líkaminn fær að meðtaka og njóta.
Þessir tímar eru opnir. En í Yin jóga er unnið með dýpri vefi líkamans eins og bandvefi, sinar og liðbönd. Hverri stöðu er haldið í nokkurn tíma oftast 3 til 5 mínútur og þannig eykst liðleiki okkar og hreyfigeta. Á námskeiðinu eru kenndar grunnstöður Yin jóga ásamt útfærslum af þeim. Við fræðumst um Yin jóga, hver ávinningur þess er og hvernig það er frábrugðið Yang jóga. Farið verður yfir orkubrautir líkamans og líffæri sem tilheyra hverri braut og tengsl þeirra við andlega og líkamlega heilsu.
Námskeiðið er ætlað karlmönnum á öllum aldri. Farið er í undirstöðuatriði jógaiðkunar. Með námskeiðinu er stefnt að auknum styrk og liðleika þátttakenda ásamt því að bæta almennt líkamlega og andlega heilsu þeirra. Á námskeiðinu er farið í gegnum helstu jógastöður, djúpar teygjur, öndun og hugleiðslu. Þá verður góð slökun i lok hvers tíma. Mikil áhersla er lögð á rétta líkamsbeitingu í gegnum jógaflæði. Fyrstu tímarnir verða með hægum takti en hraðinn svo aukinn lítillega þegar líður á námskeiðið.