UM YOGA&PILATES

HVAÐ ER YOGA!

Orðið yoga merkir sameining og er þá átt við sameiningu huga, líkama og sálar. Í yoga reynum við að skoða okkur sjálf og auka sjálfsþekkingu okkar. Með því að setja fókusinn inn á við aukum við næmnina á okkar eigin líkama, okkur sjálfum og komust betur að innri kjarna. Með því öðlumst við betri jarðtengingu, meiri núvitund og aukna hugarró. Sýnt hefur verið fram á að yoga æfingar, stöður og hugleiðsla auka hæfileika okkar til að einbeita okkur, minnka stress og kvíða. Auk andlegra ávinninga hefur yoga fjölmarga líkamlega ávinninga. Yoga gefur aukinn liðleika og styrk, smyr liði, liðbönd og sinar, gefur innri líffærum nudd , mótar líkamann og gefur aukna lungnarýmd.

Ólíkar tegundir af yoga hafa rutt sér til rúms í gegnum aldirnar en sú nálgun sem hefur orðið hvað vinsælust í Vesturlöndum er Hatha yoga. Hatha yoga er skilgreint sem hluti af Raja yoga og snýst um að koma jafnvægi á orkuflæðið í líkamanum, að vekja upp Prana lífsorkuna í gegnum öndunaræfingar og líkamsstöður. Hatha yoga hefur orðið mjög vinsælt í Vesturlöndum vegna heilsueflandi ástæðna. Regluleg ástundun styrkir bak og kvið, losar spennu og fyrirstöður í vöðvum og sinum, liðkar stoðkerfið, örvar innkirtlakerfið, eflir meltingu, dregur úr liðverkjum og gefur okkur aukna orku.

HVAÐ ER PILATES!

Pilates er æfingakerfi sem hinn þýskættaði Joseph Pilates útfærði og hannaði. Um er að ræða góðar styrkjandi og liðkandi æfingar þar sem megináherslan er lögð á að styrkja djúpa vöðvakerfi líkamans ( kjarnvöðvana ). Pilatesæfingar eru gerðar rólega í takt við öndunina, eru mjúkar en samt áhrifaríkar. Pilates er frábært æfingakerfi fyrir stoðkerfið. Auk þess að styrkja líkamann innan frá er Pilates jafnframt góð leið til að liðka og mýkja líkamann, öðlast betri líkamsvitund og líkamsstjórn auk þess sem líkamsstaðan verður betri. Ekki er lögð áhersla á að pumpa og stækka vöðvana heldur er unnið mikið með vöðvana í lengingu þannig að iðkandinn fær granna og langa vöðva.

Pilates hefur í ríkari mæli verið notað af meðferðaraðilum út um allan heim sem meðferðarform á ýmsum stoðkerfisvandamálum með góðum árangri, enda hafa rannsóknir sýnt hve mikilvægt er að halda vöðvastyrk til að minnka álag á liði, liðbönd og sinar.

Nánast allir geta iðkað Pilates óháð aldri, kyni eða íþróttabakgrunni. Farið er á eigin hraða og hægt er að gera fjölmargar útfærslur af hverri æfingu þannig að allir geta útfært æfingarnar út frá sinni eigin getu.

Auk líkamlegs ávinnings er Pilates jafnframt streitulosandi og getur gefið aukna orku þar sem öndunin spilar stórt hlutverk í framkvæmd æfinganna.

HVAÐ ER YOGALATES!

Yogalates er skemmtileg blanda af yoga og pilatesi. Þannig verður til frábært æfingakerfi sem gefur okkur aukinn styrk úr pilatesi og aukinn liðleika úr yoga. Yogalates leggur áherslu á að styrkja miðjuna, maga, rass og bakvöðva, bæta líkamsstöðu, teygja vöðva, tóna líkamann, bæta líkamsstjórn og auka blóðflæði. Æfingarnar eru gerðar í takti við öndunina sem hjálpar til við spennu og streitulosun.